Sækja Firefox

Firefox er ekki lengur stutt á Windows 8.1 og eldra.

Sæktu Firefox ESR (Extended Support Release) til að nota Firefox.

Firefox er ekki lengur stutt á macOS 10.14 og eldra.

Sæktu Firefox ESR (Extended Support Release) til að nota Firefox.

Persónuverndarstefna Firefox

Stefnuskrá Mozilla

Inngangur

Netið er að verða sífellt mikilvægari hluti af lífi okkar.

Mozilla verkefnið er alþjóðlegt samfélag fólks sem trúir því að hreinskilni, nýsköpun og tækifæri séu lykillinn að góðri áframhaldandi heilsu internetsins. Við höfum unnið saman síðan 1998 til að tryggja að internetið sé þróað á þann hátt sem gagnast öllum. Við erum þekktust fyrir að búa til Mozilla Firefox vafra.

Mozilla verkefnið notar samfélagsmiðaða nálgun til að búa til heimsklassa opinn hugbúnað og til að þróa nýjar gerðir af samvinnuvirkni. Við búum til samfélög fólks sem tekur þátt í að gera netupplifunina betri fyrir okkur öll.

Sem afleiðing af þessari viðleitni höfum við sett saman meginreglur sem við teljum að séu mikilvægar til að internetið haldi áfram að gagnast almannaheill sem og viðskiptalegum þáttum lífsins. Við setjum þessar meginreglur fram hér að neðan.

Markmið stefnuskrárinnar eru að:

  1. setja fram sýn fyrir internetið sem þátttakendur í Mozilla vilja að Mozilla Foundation fylgi;
  2. tala við fólk hvort sem það hefur tæknilegan bakgrunn eða ekki;
  3. gera þátttakendur í Mozilla stolta af því sem við erum að gera og hvetja okkur til að halda áfram; og
  4. skapa umgjörð fyrir annað fólk til að efla þessa sýn á internetið.

Þessar meginreglur munu ekki lifna við sjálfar. Það þarf fólk til að gera internetið opið og taka þátt - fólk sem starfar sem einstaklingar, vinnur saman í hópum og leiðir aðra. Mozilla Foundation hefur skuldbundið sig til að efla meginreglurnar sem settar eru fram í Mozilla stefnuskránni. Við bjóðum öðrum að vera með okkur og gera internetið að sífellt betri stað fyrir alla.

Meginreglur

  1. Internetið er óaðskiljanlegur hluti af nútíma lífi - lykilþáttur í menntun, samskiptum, samvinnu, viðskiptum, skemmtun og í samfélaginu sem heild.
  2. Internetið er víðvær almenningsauðlind sem verður að vera opin og aðgengileg.
  3. Internetið verður að auðga líf einstaklinga.
  4. Öryggi og friðhelgi einkalífs einstaklinga á internetinu er grundvallaratriði og má ekki meðhöndla sem valkvætt.
  5. Einstaklingar verða að hafa möguleika til að móta netið og sína eigin upplifun á netinu.
  6. Skilvirkni internetsins sem opinberrar auðlindar er háð samvirkni (samskiptareglur, gagnasnið, innihald), nýsköpun og dreifðri þátttöku um allan heiminn.
  7. Frjáls og opinn hugbúnaður stuðlar að þróun internetsins sem opinberrar auðlindar.
  8. Gagnsæ samfélagsleg ferli stuðla að þátttöku, ábyrgð og trausti.
  9. Þátttaka viðskiptalegra hagsmunaaðila í þróun internetsins hefur marga kosti í för með sér; jafnvægi milli viðskiptahagnaðar og almannahagsmuna er mikilvægt.
  10. Að leggja áherslu á almannahagsmuni internetsins er mikilvægt markmið, verðugt tíma, athygli og skuldbindingar.

Koma stefnuskrá Mozilla á framfæri

Það eru margar mismunandi leiðir til að koma meginreglum stefnuskrár Mozilla á framfæri. Við fögnum fjölbreyttri starfsemi og sjáum fyrir sama sköpunarkraftinn og þátttakendur í Mozilla hafa sýnt á öðrum sviðum verkefnisins. Fyrir einstaklinga sem ekki eru á kafi sem þátttakendur í Mozilla verkefninu, þá er ein einföld og mjög áhrifarík leið til að styðja við yfirlýsinguna sú að nota Mozilla Firefox og annan þann hugbúnað sem felur í sér meginreglur stefnuskrárinnar.

Loforð Mozilla Foundation

Mozilla Foundation lofar að styðja stefnuskrá Mozilla í starfsemi sinni. Nánar tiltekið munum við:

  • byggja upp og styðja við opna tækni og samfélög sem styðja meginreglur stefnuskrárinnar;
  • byggja og afhenda frábæran neytendahugbúnað sem styður meginreglur stefnuskrárinnar;
  • nota eignir og tilföng Mozilla (hugverkarétt eins og höfundarrétt og vörumerki, innviði, fjármuni og orðspor) til að halda internetinu sem opnum vettvangi;
  • styðja og koma á framfæri fyrirmyndum til að skapa efnahagsleg verðmæti í þágu almennings; og
  • kynna meginreglur Mozilla stefnuskrárinnar í opinberri umræðu og innan netiðnaðarins.

Sum starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar – sem í dag er smíði, afhending og kynning á neytendahugbúnaði – fer fyrst og fremst fram í gegnum dótturfyrirtæki í fullri eigu Mozilla Foundation; Mozilla Corporation.

Hvatning

Mozilla Foundation býður öllum öðrum sem styðja meginreglur Mozilla stefnuskrárinnar að taka þátt með okkur og finna nýjar leiðir til að gera þessa sýn á internetinu að veruleika.